Af hverju Alheimur?

Stuðningur við nám

Stefnt er að því að Alheimur myndi sterka, öfluga tengingu við skóla landsins. Vísindasetrið mun þannig styðja við menntun á öllum skólastigum með því að markmiði að auka vísindalæsi og áhuga barna og ungmenna á vísindum. Vísindasetrið er mikilvægur hlekkur í stuðningi við STEM menntun og styður vel við vísinda og tæknistefnu stjórnvalda.

Efling vísindalæsis og sjálfbærnisvitundar samfélagsins

Eitt af markmiðum setursins er að efla þekkingu almennings á vísindum sem stuðlar að upplýstri ákvarðanatöku og eyðir ranghugmyndum. Mikilvægt er að efla traust samfélagsins á vísindum þar sem það verður betur í stakk búið til að takast á við margþætt viðfangsefni allt frá lýðheilsuvandamálum til sjálfbærni í umhverfismálum. Einnig er gríðarlega mikilvægt að efla fjölskyldur í að lifa samkvæmt sjálfbærnimarkmiðum og hvetur Alheimur til þess.

Afþreying innandyra

Víst er að vöntun er á afþreyingu innandyra fyrir fjölskyldur hér á Íslandi. Sýn Alheims er að fjölskyldur og vinahópar geti eytt saman deginum á vísindasetrinu og að þar sé eitthvað við allra hæfi.

Stuðningur við ferðaþjónustu

Alheimur verður eftirsóttur viðkomustaður fyrir ferðamenn og verður þannig mikilvægt framlag til ferðaþjónustunnar á Íslandi. Hingað koma margar erlendar fjölskyldur í frí og Alheimur er fullkominn áfangastaður fyrir þær þar sem skemmtun og fræðsla tvinnast saman svo að upplifun verður einstök.

Efling skapandi og lausnarmiðaðrar hugsunar

Eitt af hlutverkum Alheims er að skapa vettvang fyrir þverfaglegt samstarf milli listgreina og vísinda. Við búum í samfélagi sem er síbreytilegt, þar sem hraðvaxandi tækni skapar bæði möguleika og áskoranir. Alheimur vísindasetur skapar fullkomið tækifæri til að nýta hæfileika og hugmyndir ólíkra hópa til að auðga samfélagið.

Hvetjandi umhverfi fyrir fyrirtæki

Fyrirtæki munu setja svip sinn á Alheim en þar verður vettvangur til að deila vísinda- og tæknistarfi fyrirtækja ásamt því að kynna almenna starfsemi þeirra. Alheimur vísindaveröld verður einnig kjörinn staður fyrir ráðstefnur, vinnustofur og hópefli í hvetjandi umhverfi en einnig er hægt að hafa viðburði sem efla vörumerkjaímynd og viðskiptavild fyrirtækis.

Þjónusta við landsbyggðina

Alheimur leggur áherslu á að ná til allra landsmanna og er gott samstarf við sveitarfélög lykilþáttur. Skólaheimsóknir verða jafnmikilvægar á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu en einnig verður hægt að skipulegga ferðasýningar eða sérstaka viðburði og nýta stafræn úrræði á margvíslegan hátt.