Samfélagsleg ábyrgð

Samfélagsleg ábyrgð

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Sjálfbærni er eitt af grunngildum Alheims, hagur og velferð manna og dýra í framtíðinni og hvernig hægt verður að ná langtíma markmiðum. Afar mikilvægt er að sú kynslóð sem nú elst upp sé meðvituð um umhverfið og um það hvernig ákvarðanir sem nú eru teknar hafa áhrif á framtíðina.

Verndun hafsins, loftslagsbreytingar, endurnýting og minnkun neyslu eru meðal þeirra viðfangsefna sem verða tekin fyrir á setrinu. Við sjáum fyrir okkur komandi kynslóðir sem bæði flokka og plokka. Vísindasetrið gegnir því mikilvægu hlutverki í aukinni virkni samfélags í átt að sjálfbærni. 

Jafn aðgangur fyrir öll er mikilvægur og hugað verður að minnihluta- og jaðarsettum hópum með hófstilltri verðlagningu. Vísindasetrið er ekki hagnaðardrifið heldur byggir á þeirri hugsjón að gera menntun og fræðslu aðgengilega fyrir öll. Alheimur styður við forvarnarstarf í landinu þá einkum með tilliti til heilsu og geðheilbrigði barna og ungmenna.


Vísinda- og tæknistefna stjórnvalda

Alheimur styður við vísinda- og tæknistefnu stjórnvalda. Markmið stefnunnar er meðal annars að efla verðmætasköpun sem byggist á hugviti og að fjölga störfum í þekkingargreinum. Stefnan er að rannsóknir og nýsköpun nýtist samfélaginu við að takast á við samfélagslegar áskoranir. Einnig er markmiðið að fjölga nemendum sem sækja tækninám á háskólastigi.

Meðal aðgerða sem stjórnvöld nefna í vísinda- og tæknistefnu frá árinu 2020 er að efla miðlun vísinda m.a. til að auka áhuga, þekkingu og færni í STEM greinum. Auka samvinnu milli skólastiga og efla faglegan stuðning til kennara.