Hvað er Alheimur?

Alheimur er vísindasetur sem mun innihalda gagnvirkt og í senn áþreifanlegt efni um hin ýmsu svið vísinda þar sem börn og aðrir gestir fá tækifæri til að prófa, snerta, heyra og sjá í staðinn fyrir að lesa langa fræðilega texta.

Ásamt því að nýta nýjustu tækni mun setrið vera áþreifanlegt í þeim skilningi að skapa leikrænt og litríkt umhverfi sem heillar við fyrstu sýn. Markmiðið er að kveikja áhuga á vísindum með óhefðbundnum leiðum og með því efla forvitni og skapandi hugsun hjá börnum sem og öðrum gestum. 

Alheimur er einnig fræðasetur þar sem haldin verða vísindanámskeið fyrir börn og fjölbreyttir fyrirlestrar. Einnig er stefnt að því að halda námskeið fyrir kennara og leiðbeinendur í faginu þar sem kynntar verða fjölbreyttar og áhugaverðar leiðir til notkunar í kennslu. Hugmyndirnar eru endalausar og möguleiki að setrið innihaldi svæði sem er breytilegt og hægt verði að vera með innsetningar af mörgum gerðum.